Fjarðabyggð hefur undirritað verksamning við Launafl ehf um gagngerar endurbætur á eldri hluta Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar upp á tæpar 69 milljónir króna. Verkið hefst nú þegar en skiladagur er 15. október í haust. Verkið er fjölþætt en meðal verkliða er að leggja nýjar jarðvatns- og drenlagnir umhverfis eldri byggingu, setja upp loftræstisamstæðu og leggja loftræstilagnir, afleggja ofna og ofnalagnir og leggja nýjan gólfhita, skipta út gólfefnum, skipta út lýsingu, setja upp nýjar hurðir og mála og snurfusa.

Launafl er fjölhæft fyrirtæki með margar deildir og mun vinna alla þætti verksins nema smíða innihurðir sem verða framleiddar af Trévangi ehf.

Verktíminn er þokkalega hagstæður burtséð frá því að um er að ræða há-sumarfríatímann sem er aftur á móti yfirleitt rólegasti tími ársins hjá Alcoa Fjarðaáli sem er lang stærsti verkkaupi Launafls. Lýst mönnum almennt vel á verkið og hlakka til að takast á við það. Gerðar eru strangar kröfur í öryggis og umhverfismálum en þar er Launafl á heimavelli og ætla menn sér að vera til fyrirmyndar í umgengni og samstarfi við skólaastjórnendur svo skólahald geti blómstrað á meðan á verkinu stendur.